Nemendur af vélstjórnarbraut fóru á dögunum og skoðuðu M.S. Dettifoss, sem er stærsta skip íslenska flotans. Með í för voru 11 nemendur og kennararnir Ívar Valbergsson og Þorsteinn Ingi Hjálmarsson. Það voru Einar Björnsson yfirvélstjóri og Gunnlaugur Magnússon framkvæmdastjóri skipasviðs Eimskips sem tóku vel á móti hópnum og sýndu skipið.
Hópurinn skoðaði auðvitað vélabúnað skipsins en aðalvél þess er hvorki meira né minna en 23.000 hestöfl og 15 metra há. Þess má geta að Dettifoss gæti framleitt rafmagn sem myndi duga fyrir megnið af íbúum á Reykjanesi. Nemendum fannst mikið til koma en tóku eftir því að skjástýrikerfið var svipað og í þrívíddarhermum sem notaðir eru í kennslunni í skólanum.
Hópurinn skoðaði einnig ljósavélar, rafstöðvar, síur, hreinsibúnað og fleira. Þá fékk hópurinn að skoða brú, eldhús, messa og líkamsræktarsal þessa risastóra skips.
Nemendur og kennarar voru mjög ánægðir með skemmtilega og fróðlega heimsókn enda fékk hópurinn frábærar móttökur um borð.