Umsækjendur þurfa að hafa lokið grunnskólanámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla. Einnig þurfa umsækjendur að hafa lokið undanfaraáföngum (sjá hér fyrir neðan) áður en nám hefst í sérgreinum brautarinnar. Möguleiki er á að fá annað nám metið í stað undanfaraáfanga og því mikilvægt að senda inn umbeðin gögn með umsókn. Við hvetjum þá sem ekki hafa lokið undanfaraáföngum til að sækja um sem fyrst svo tími gefist til að ljúka þeim áföngum sem uppá vantar.
Starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur samband eftir að umsókn hefur borist og aðstoðar umsækjendur við að leita lausna varðandi undanfaraáfanga.
Umsækjendur með stúdentspróf eða bakkalárgráðu frá háskóla fá alla undanfara metna og komast því beint inn í sérgreinar brautarinnar.
Hægt er að sækja um á umsokn.inna.is
Samsetning og fyrirkomulag náms
Sérgreinar námsins eru kenndar á tveimur önnum, haust- og vorönn, með blöndu af fjarnámi og staðlotum. Bóklegur hluti námsins er að mestum hluta kenndur í fjarnámi en verklegur hluti í staðlotum í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík. Skyldumæting er í staðlotur. Nemendur þurfa að hafa aðgang að aðstöðu til líkamsræktar s.s. heilsuræktarstöð á meðan námi stendur.
Námið er skipulagt sem fjarnám með staðlotum Nemendur geta auðveldlega stundað námið hvar sem er á landinu en þurfa þó að mæta í staðloturnar. Nemendur alls staðar af landinu hafa hingað til sótt námið.
Er mögulegt að vinna með náminu?
Ekki er ráðlagt að vinna fulla vinnu með náminu þar sem álagið í náminu er mikið. Stefni nemandi á að vinna með náminu er mjög mikilvægt að skipulag sé mjög gott og vekjum við því athygli á náms- og starfsráðgjöfum Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem veita ráðleggingar varðandi skipulag og námstækni. Sérgreinaárið telur 70 einingar sem eru fleiri einingar en skilgreiningin á fullu námi á framhaldsskólastigi segir til um, eða 60 einingar á ári.
Hvað kostar námið?
Innritunargjald er kr. 6.000. Hver eining kostar 3.000 kr. Námsgjöld eru ekki endurgreidd eftir að önnin hefst.
Einingar
Verð + innritunargjald
Einn áfangi - 5 einingar
6.000 + 15.000 = 21.000 kr.
Fullt nám - 35 einingar
6.000 + 105.000 = 111.000 kr.
Er námið hugsað fyrir fólk á ákveðnum aldri?
Nei, námið er ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á þjálfun einstaklinga og heilbrigðum lífsstíl. Nemendur okkar hingað til hafa verið á öllum aldri og af öllum kynjum.
Er gerð krafa um að nemendur séu í góðu líkamlegu ástandi?
Æskilegt er að nemendur séu færir um að framkvæma þær æfingar sem fylgja líkamsþjálfun til að geta leiðbeint skjólstæðingum með framkvæmd æfinga. Ekki er gerð krafa um að nemendur séu í afburða líkamlegu ástandi.
Hvaða námslega grunn þarf ég að hafa til að komast inn?
Þar sem brautin er heil námsbraut á framhaldsskólastigi þurfa umsækjendur að hafa lokið við áfanga í kjarna- og heilbrigðisgreinum (við köllum þessa áfanga undanfaraáfanga) brautarinnar áður en nám í sérgreinum hefst. Upplýsingar um hvaða áfangar þetta eru má finna hér að ofan en mögulegt er að fá sambærilega áfanga metna í stað þeirra sem taldir eru upp.
Get ég tekið áfanga sem mig vantar uppá til að standast inntökuskilyrðin hjá FS?
Já, FS býður uppá nokkra af þeim áföngum sem tilheyra námsbrautinni í kjarna í staðnámi. Einnig eru áfangarnir kenndir í fjarnámi í öðrum framhaldsskólum.
Get ég sótt um án þess að vera búinn með undanfaraáfanga?
Já, þú getur sent okkur umsókn án þess að hafa lokið undanfaraáföngunum og við aðstoðum þig með að finna út hvaða áfanga þig vantar upp á til að komast inn í sérgreinarnar. Undanfaraáföngunum þarf að vera lokið áður en sérgreinarnar hefjast.
Braut - Prentvæn útgáfa
PDF-skjal með Einka- og styrktarþjálfun ÍAK 2024 til að prenta út.