Heimildaritgerðir

Í góðri heimildaritgerð er skýr boðskapur frá höfundi til lesenda. Lesendur fá svör við þeim spurningum sem líklegt er að lesandinn hafi um efnið. Efnið er flokkað þannig að með hjálp efnisyfirlits er auðvelt að leita svara við tilteknum spurningum. Málfar er gott og innsláttarvillur helst engar. Auðvelt er að sjá hvaða heimildir eru notaðar og hægt að rekja með hjálp tilvísana á hvaða heimildum tilteknar staðhæfingar eru byggðar.

Heimildaritgerð er ekki endursögn á heimildum. Til að komast hjá þessari afar algengu kórvillu er afar gott, og raunar nauðsynlegt, að byrja á byrjuninni. Munu hér rakin nokkur atriði sem gott er að hafa í huga til að árangurinn verði í samræmi við góðan vilja.

1. Fyrst þarf að gera sér grein fyrir hvað á að vera í verkinu. Í upphafi verður að velja sér efni og síðan setur maður fram s.k. rannsóknarspurningu sem síðan getur þjónað sem bráðabirgðaheiti á ritgerðinni. Á meðan efnið er svo hugleitt verður að halda dauðahaldi í þessa fyrirsögn til að verkið fari ekki út um víðan völl. Best er að setjast niður með blað og blýant, láta hugann reika og velta fyrir sér spurningunni: „Hvað vil ég vita um efnið?" Þær spurningar sem vakna skrifar maður á blaðið og hættir ekki fyrr en þær skipta nokkrum tugum. Síðan er best að verða sér úti um spjaldskrárspjöld í stærðinni A6 (fást í bókabúðum) og skrifa eina spurningu á hvert spjald. Aldrei má hefjast handa með því að útvega heimildir og lesa þær. Þá er nefnilega líklegast að verkið verði endursögn á einhverri bókinni og atriði sem höfundur hennar sleppti komast því ekki með í okkar verki.

2. Síðan raðar maður spjöldunum upp, saman því sem saman á, og í þeirri röð sem eðlilegast er að efnisatriði verði í ritgerðinni. Þar með er komin efnisgrind í hana og grunnur að efnisyfirliti.

3. Nú koma heimildirnar. Við leitum að svörum við spurningunum og skrifum þau á spjöldin. Ekki má gleyma að skrifa líka hvar þau er að finna. Á þessu stigi vakna gjarnan nýjar spurningar og þá býr maður vitaskuld til ný spjöld og setur á réttan stað í bókhaldinu.

4. Svo kemur að því að semja textann. Hann á að vera eign höfundarins en ekki endurómur heimildanna. Þess vegna er best að leggja þær frá sér og nota spjöldin og semja textann sjálfur. Beinagrindina höfum við fengið með spurningunum en hold og blóð kemur frá okkur sjálfum. Gott er að venja sig á að nota spurningar sem kaflafyrirsagnir og svara þeim síðan í kaflanum.

5. Nú kann að fara svo að orðalag heimildanna sé þannig að maður vilji gjarnan nota það. Slík tilvitnun má aldrei bera annan texta ofurliði, hámark 10-15% af texta ritgerðarinnar, og ævinlega skýrt afmörkuð. Sé hún stutt, 1-3 línur, og í beinu samhengi við okkar texta afmarkast hún af gæsalöppum (rétt gerðum íslenskum „") en lengri tilvitnanir skal draga inn, báðar spássíur, um 5 stafabil (slög), minnka línubilið og smækka stafina um 2 punkta. Þá skal ekki nota gæsalappir.

6. Ævinlega verður að geta heimildar við beinar tilvitnanir. En ekki nóg með það. Komi upplýsingar í ritgerðinni sem ekki eru á allra vitorði (og hér verður að beita skynseminni) verður að vísa til heimildar. Annars gefur ritgerðarsmiður í skyn að hann hafi sjálfur rannsakað málið og fengið þessar niðurstöður. Slíkt gerir maður ekki nema svo sé. Gleymið ekki að myndir sem teknar eru úr heimildum eru auðvitað beinar tilvitnanir og verður að meðhöndla sem slíkar.

7. Til heimildar vísar maður svona:
(Höfundur, ártal:blaðsíða). Dæmi: (Ólafur Jónsson, 1979:47). Til þess að verkið verði nú ekki allt útbíað í svigum er langbest að venja sig á nota neðanmálsgreinar, enda eru svona svigar ekki hafðir þar1. Svo vel vill til að þær tölvur sem hér eru í notkun (bæði Makkar og Pésar) gera þetta fyrir fólk án þess að fara í nokkra fýlu. Bendillinn er settur þar sem greinin á að koma og farið í insert. Þar finnst footnote og síðan skýrir þetta sig sjálft. Tölvan sér svo til þess að neðanmálsgreinin lendi alltaf á réttri blaðsíðu og númer greinanna verði í réttri röð. Þeir sem vilja hafa tilvitnanaskrá aftan við ritgerð mega aldrei rugla henni saman við heimildaskrá. Leiðbeiningar um uppsetningu heimildaskrár eru annars staðar á vef FS.

8. Gæsalappir eiga að opnast niðri og lokast uppi. Að kalla þær fram er mjög einfalt ef maður þekkir leiðina. Á Makka koma þær niðri með alt+ð " en uppi með alt+Ð ". Á Pésa koma þær með alt (vinstra megin) +0132 niðri en alt+0147 uppi. Þessar tölur verður að slá á lyklaborðinu hægra megin.

9. Munið svo að skipta verkinu í inngang, meginmál, sem getur skipst í marga kafla, og lokaorð. Verið frumleg í inngangi og leiðið lesandann að verkinu þannig að hann verði forvitinn um efni þess, upplýsið hann í meginmáli (sem aldrei má heita meginmál) og sýnið fram á að ætlunarverkinu sé lokið í lokaorðum. Ávarpið lesandann aldrei beint og reynið að halda persónu ykkar utan verksins.

10. Á hverri síðu eiga að vera 30 línur og línubil í samræmi við það, 12 punkta letur og hæfilegar spássíur. Skáletur má aldrei nota í ritgerð nema ætlunin sé að benda sérstaklega á eitthvert atriði. Í tölvur skólans hefur verið settur ritgerðastaðall með réttu formi og sömuleiðis fyrir lengri beinar tilvitnanir. Tölvukennarinn upplýsir ykkur um hvernig á að finna þetta.

11. Munið svo að lesa vel yfir. Fátt er meira niðurdrepandi en annars góð ritgerð sem öll er löðrandi í prentvillum. Treystið aldrei villuleitarforritum.

12. Þegar allt er tilbúið skrifar höfundur nafn sitt undir ritgerðina, ekki heimildaskrána sem á að vera aftast.

1 Ólafur Jónsson, 1979:47.


Tekið saman af íslenskukennurum Fjölbrautaskóla Suðurnesja