Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Í reglugerð Menntamálaráðuneytisins, númer 654 frá árinu 2009, segir að framhaldsskólar skuli setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Áætlunin á að taka mið af bakgrunni nemenda, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu og stuðningi sem veittur er.

Samstarf við grunnskóla

  • Verkefnastjóri með málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er í samskiptum við þá sem hafa yfirumsjón með málefnum þessara nemenda í nærliggjandi grunnskólum.
  • Farið er yfir námslega og félagslega stöðu nemenda annað hvort rafrænt eða á fundi.
  • Verkefnastjóri er einnig í sambandi við skólastjórnendur grunnskólanna um innritun nemenda.


Innritun

    • Kennarar í grunnskólum á svæðinu og aðrir aðilar, sem aðstoða erlenda nemendur við innritun í skólann, eru beðnir um að rita í athugasemd hvað nemendur hafa verið lengi á Íslandi og hver staða þeirra er í íslensku. Með þessu aukast líkur á að nemandinn raðist rétt í áfanga. Einnig að þjóðerni nemenda og kyn sé ritað í athugasemd en þessar upplýsingar koma ekki úr Þjóðskrá fyrir nemendur sem eru ekki með kennitölu.
    • Þeir nemendur sem hafa ekki verið í grunnskóla á Íslandi en hafa áhuga á að stunda nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sækja um á Menntagátt (ef þeir eru með íslenska kennitölu) eða á skrifstofu skólans (ef þeir eru án kennitölu). 

Móttaka nemenda með annað móðurmál en íslensku

    • Eftir að nemendur eru innritaðir inn í skólann fá þeir sent eyðublað þar sem þeir geta í samráði við foreldra miðlað helstu upplýsingum um bakgrunn, málasvæði, tungumálafærni og kunnáttu og hæfni á öðrum námssviðum.
    • Í kjölfarið mæta þeir í viðtal hjá verkefnastjóra þar sem farið er yfir eyðublaðið, líðan og væntingar nemanda til skólans.
    • Verkefnastjóri býður upp á hópfund með foreldrum nemenda með annað móðurmál en íslensku í upphafi annar þar sem farið er yfir hagnýt atriði eins og Innu, mætingarreglur, skráningu veikinda o.s.frv. Fundurinn er haldinn á íslensku (enska notuð ef á þarf að halda) og foreldra beðnir um að mæta með aðila sem er fær um að túlka ef þeir þurfa á því að halda.
    • Til að stunda nám og fá aðgang að Innu þurfa nemendur að eiga rafræn skilríki. Þeir nemendur sem eru ekki komnir með kennitölu en hafa fengið skólavist og borgað skólagjöld geta í flestum tilvikum fengið tímabundinn aðgang að Innu. Reynt er að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda eins og kostur er. 


Aðstoð við nemendur

    • Verkefnastjórinn sér um utanumhald og umsjón með nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku. Hann kynnir skólakerfi FS, skólareglur, námsbrautir og stuðningskerfi sem skólinn býður upp á fyrir nemendum.
    • Hann sér einnig um að aðstoða nemendur með það sem þeir þurfa aðstoð við, hvort sem það eru upplýsingar um eitthvað sem viðkemur skólanum eða heimanám.
    • Verkefnastjórinn lætur kennara vita ef breytingar verða á högum nemenda sem hafa áhrif nám þeirra í skólanum.
    • Verkefnastjórinn fylgist einnig með námsframvindu nemenda í góðu samstarfi við faggreinakennara, aðstoðar nemendur við val og er nemendum innan handar varðandi framvindu í þeim áföngum sem þeir sækja.
    • Verkefnastjóri er með fastan viðtalstíma og fastan tíma þar sem hann aðstoðar nemendur sem þurfa aðstoð við heimanám. Ef nemendur óska eftir aðstoð og fastir tímar henta ekki, finnur verkefnastjóri tíma í samráði við nemandann.
    • Verkefnastjóri er einnig tengiliður nemenda við námsráðgjafa og kennara.
    • Verkefnastjóri upplýsir nemendur um uppákomur og annað sem viðkemur skólastarfinu. Hann sendir nemendum tölvupóst á bæði íslensku og ensku (eftir þörfum) og upplýsir þá um það sem framundan er í skólastarfinu. 


Íslenskukennsla

  • Nemendur með annað móðurmál en íslensku fá sérstaka kennslu í íslensku sem öðru tungumáli í skólanum.
  • Nemendum er raðað í áfanga í íslensku sem öðru tungumáli í samráði við grunnskólann.
  • Eftir upplýsingagjöf eða fund verkefnastjóra með kennurum nemenda með annað móðumál en íslensku ræðir verkefnastjóri við námsráðgjafa um röðun nemenda í íslenskuáfanga.
  • Kennsla í íslensku sem öðru tungumáli er einstaklingsmiðuð eftir þörfum hvers nemanda.
  • Nemendur sem hafa ekki gengið áður í íslenskan skóla og hafa þar af leiðandi lítinn sem engan grunn í íslensku innritast sjálfkrafa á braut fyrir erlenda nemendur (NFE).
  • Á NFE brautinni eru fyrstu þrjár annirnar að mestu stýrðar og hægt og rólega er öðrum áföngum bætt við eins og nemendur treysta sér til.
  • Til að tryggja árangur nemenda til lengri tíma er mikilvægt er að gefa þeim góðan grunn í íslensku í upphafi námstímans. 

    Síðast breytt: 16. október 2024