Vel heppnuð Erasmus+ námsferð til Zagreb

Fimmti fundurinn í Erasmus+ verkefninu Media and Information Literacy: Learning to Think Critically var haldinn í höfuðborg Króatíu, Zagreb dagana 12.-16. febrúar. Fundinn sóttu sex nemendur og þrír kennarar Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt þátttakendum úr samstarfsskólunum sem eru Trgovačka škola og Gimnazija Sesvete (Króatía), Baldones vidusskola (Lettland), Orhan Cemal Fersoy Anadolu Lisesi (Tyrkland), Escola Secundária Pinheiro Rosa (Portúgal) og Istituto Tecnico Commerciale Statale Luigi Sturzo (Ítalía).

Markmiðið með þessu Erasmus+ verkefni er að kenna nemendum færni sem gerir þeim kleift að greina og meta mismunandi fjölmiðlaskilaboð, sem og að búa til sín eigin með því að nota þá þekkingu sem þeir öðlast í verkefninu. Einnig að efla grunnfærni nemenda til gagnrýninnar hugsunar, styrkja þá í sjálfstjáningu og ákvarðanatöku.

Verkefnið snýst um að efla upplýsinga- og fjölmiðlalæsi og þjálfa gagnrýna hugsun. Fyrir hvern fund skipuleggja kennarar vinnustofur sem þjálfa nemendur á fjölbreyttan hátt í ýmsu sem tengis þema verkefnisins. Vinnustofurnar hafa t.d. fjallað um mannréttindi, lýðræðislega umræðu, staðalímyndir í fjölmiðlum, tjáningarfrelsi, auglýsingar, neysluhyggju, höfundarétt, stafrænt fótspor, falsfréttir og upplýsingaóreiðu og nýtingu gervigreindar svo fátt eitt sé talið.

Nemendur taka einnig þátt í kappræðum um ýmis málefni en eitt efni er tekið fyrir á hverjum fundi og undirbúa nemendur sig áður en lagt er af stað í ferðina. Að þessu sinni var umræðuefnið: Er friðhelgi einkalífs til á internetinu? ( e. Is there a privacy on the internet?)

Íslenski kennarahópurinn skipulagði vinnustofu í auglýsingahönnun með aðstoð gervigreindar. Vinnustofan tókst vel og margar fínar auglýsingar litu dagsins ljós á þeim klukkutíma sem vinnustofan tók og nemendur voru fljótir að læra á hin ýmsu gervigreindartól.

Gervigreind var þema vinnustofanna á þessum fundi og tóku nemendur okkar þátt í þeim öllum: Stofnun skólablaðs með aðstoð gervigreindar (Portúgal), Hversu auðvelt er að búa til falsfréttir með gervigreind? (Lettland), Samvinnunám með aðstoð gervigreindar og veftóla (Tyrkland), Upptaka og vinnsla stuttra myndbanda og hljóðvarpa (Ítalía).

Hópurinn heimsótti króatíska ríkisútvarp og -sjónvarpið og fékk þar til dæmis að skoða sig um í fréttastúdíói. Landsbóka- og Háskólabókasafnið var heimsótt og þar fengum við fræðslu um viðgerðir og varðveislu gamalla rita. Í Rafmagnsverkfræði- og tölvunarfræðideild háskólans í Zagreb fékk hópurinn fyrirlestur um gervigreind í nútíð og framtíð og siðferðislegar hliðar á nýtingu hennar. Hópurinn skoðaði einni Nikola Tesla tæknisafnið, skellti sér á fašnik í bænum Samobor (karnival) og spókaði sig í ratleik um í miðborg Zagreb.

Í verkefninu er dvelja nemendur ávallt á heimilum gestgjafa hverju sinni og hefur það tekist afar vel og gefur nemendur sem taka þátt dýpri innsýn í ólíka menningu og eflir enn frekar vináttutengsl þátttakenda í verkefninu.

Sjötta og síðasta heimsóknin verður haldin í maí næstkomandi og munu fjórir nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja ferðast þangað ásamt kennurum og taka þátt í vinnustofum, kappræðum og öðru lærdómsríku og spennandi.

Samhliða skipulagningu funda og öllu sem því fylgir hafa kennarar sem taka þátt í verkefninu unnið að gerð kennsluhandbókar þar sem nálgast má á aðgengilegan hátt skipulag kennslustunda og kennsluefni. Efnið verður aðgengilegt á ensku en einnig öllum þeim tungumálum sem töluð eru í samstarfslöndunum sex. Einnig verða útbúin vefnámskeið á ensku (MOOC) sem geta þjálfað nemendur og kennara í efni sem snertir upplýsinga- og fjölmiðlalæsi og gagnrýna hugsun.

Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja í þessari ferð voru: Aldís Ögn Arnardóttir, Alexandra S.M. Matthíasdóttir, Almar Örn Arnarson, Júlía Inga Jónsdóttir, Pálmar Óli Högnason
og Sara Mist Atladóttir. Kennarar í ferðinni voru Ásta Svanhvít Sindradóttir, Bryndís Garðarsdóttir og Harpa Kristín Einarsdóttir.