Miðvikudaginn 21. febrúar var seinni Þemadagur annarinnar og að þessu sinni var dagskrá á sal í fundartíma og hádegishléi. Þar hófst Starfshlaupið með látum þegar fyrsta forkeppnin fór fram. Þar kepptu fyrirliðar liðanna í ýmsum þrautum og gekk mikið á. Liðin reyndu með sér í spurningakeppni, sódavatnsdrykkju- og ropkeppni að ógleymdri eftirminnilegri skutluflugkeppni. Keppnin barst reyndar um allan salinn og tóku viðstaddir þátt í sumum þrautanna. Fleiri forkeppnir fara fram næstu vikur en Starfshlaupið sjálft fer svo fram föstudaginn 22. mars.
Að lokinni spennandi keppni mættu bræðurnir Jón og Friðrik Dór og fluttu nokkur lög af sinni alkunnu snilld. Það var vel við hæfi því undirþemað í ár var einmitt Iceguys. Þeir bræður hafa reyndar reglulega skemmt á sal undanfarin ár og ná alltaf upp ótrúlegri stemningu. Salurinn tók undir í hverju lagi og það er alltaf mikil gleði þegar þeir bræður troða upp. Þessir frábæru tónlistarmenn gáfu sér líka tíma til að spjalla við nemendur og starfsfólk og þar voru auðvitað teknar nokkrar sjálfur með gestunum.
Það var vel við hæfi að enda Þemadaga annarinnar á þennan skemmtilega hátt en þeir tókust með prýði, allir tóku virkan þátt og skemmtu sér vel.
Í myndasafninu eru fleiri myndir frá seinni Þemadeginum.