Dagana 4.-8. desember var nýju Erasmus+ samstarfsverkefni hleypt af stokkunum með vinnufundi kennara í Zagreb, höfuðborg Króatíu. Verkefnið sem er til tveggja ára, kallast „Media and Information Literacy: Learning to Think Critically“ og er unnið í samstarfi við framhaldsskóla frá Króatíu, Portúgal, Ítalíu, Lettlandi og Tyrklandi. Farið verður í eina námsferð til allra samstarfsskólanna og munu 4 nemendur og 2 kennarar taka þátt hverju sinni. Fulltrúar FS á fundinum voru Harpa Kristín Einarsdóttir og Hulda Egilsdóttir. Auk þeirra taka Bryndís Garðarsdóttir og Ásta Svanhvít Sindradóttir þátt í verkefninu fyrir hönd skólans. Val á nemendum mun fara fram í byrjun janúar 2023.
Í hverri ferð vinna nemendur í vinnustofum um fjölbreytt mál sem tengjast fjölmiðla-og upplýsingalæsi og taka þátt í umræðum þar sem þau þjálfa samskiptafærni og gagnrýna hugsun.
Við lok verkefnisins verður gefin út rafræn handbók fyrir kennara og netnámskeið fyrir nemendur á öllum tungumálum samstarfslandanna auk ensku. Það efni mun án efa nýtast víða en efnið verður opið og aðgengilegt öllum sem það vilja nýta.
Val á nemendum mun fara fram fljótlega og verður auglýst nánar síðar. Áhugasömum er velkomið að senda tölvupóst á harpa.einarsdottir@fss.is