Hluti af námi nemenda í myndlist er að sýna verk sín og nú hafa verið útbúin tvö rými til þess á 2. hæð í elsta hluta skólans.
Fyrra rýmið er gamall sýningarskápur sem hefur fengið heitið Gallerí Box. Fyrsta sýningin er komin í skápinn en það eru umhverfislistaverk sem nemendur unnu undir stjórn Gunnhildar Þórðardóttur myndlistarkennara. Í tilefni þess að Helgi Gíslason myndlistarmaður var gestur myndlistarnemenda var formleg opnun á rýminu og ræddi Helgi við nemendur um mikilvægi þess fyrir myndlistarmenn að sýna verk sín. Auðvitað var klippt á borða og það var Kristján Ásmundsson skólameistari sem tók það að sér.
Við hliðina á skápnum er skot þar sem einnig er búið að setja upp verk nemenda og fékk rýmið heitið Gallerí Skot. Það voru nemendur í myndlist 3TA05 á myndlistarbraut sem riðu á vaðið og settu upp verk sem þeir unnu undir stjórn kennara síns, Írisar Jónsdóttur. Áfanginn snýst um teikningar af mannslíkamanum og verkin sem eru til sýnis eru gerð með blýanti, trélitum og vatnstrélitum.
Í myndasafninu eru nokkrar myndir frá sýningum myndlistarnemenda í nýju sýningarrýmunum.