Á vefinn er nú komið veglegt myndasafn frá útskrift vorannar. Eins og venjulega var það Axel Sigurbjörnsson enskukennari sem tók myndirnar en hann hefur verið hirðljósmyndari skólans í rúma tvo áratugi. Á þeim tíma hefur Axel tekið myndir af nær öllum viðburðum og uppákomum í skólalífinu en myndasöfn síðustu ára má sjá á myndasíðunni hér á vefnum.
Myndirnar frá útskriftinni í vor verður síðasta myndasafn Axels fyrir skólann en hann lætur nú af störfum. Axel hefur unnið ómetanlegt starf við myndatökurnar og með þeim skrásett sögu skólans í rúm 20 ár. Í myndasafni skólans eru nú rúmlega 30.000 myndir sem Axel hefur tekið í gegnum árin. Við þökkum Axel kærlega fyrir hans framlag og vonum að áfram verði teknar myndir úr skólalífinu þó skarð Axels verði vandfyllt.
Hér fyrir neðan er ein af örfáum myndum þar sem Axel er fyrir framan myndavélina. Hún var tekin á útskriftinni þegar Axel og Ása Einarsdóttir, fagstjóri sjúkraliðabrautar, voru kvödd en þau láta nú bæði að störfum eftir rúmlega þriggja áratuga farsælt starf við skólann.