Metnaður í öryggismálum í FS

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er stór vinnustaður með yfir 1000 nemendur og 100 starfsmenn. Í skólanum er bæði bóknám og verknám og mikilvægt er að öllum reglum sé fylgt í öryggismálum varðandi búnað og notkun á honum. Í verknámi eru vélar og annar búnaður sem þarf að huga sérstaklega að varðandi öryggi. Í skólanum eru skýr markmið að hafa þessi mál í lagi, öllum til hagsbóta sem vinna við og sækja skólann.

Í samráði við kennara í verknámi voru settar upp myndavélar í iðngreinastofum. Stjórnendur skólans fengu aðila frá Vinnuverndarnámskeið ehf. til þess að taka út öryggismálin í skólanum og að gera athugasemdir við það sem betur mætti fara. Í framhaldi af þessu var boðið upp á vinnuverndarnámskeið þann 15. ágúst fyrir kennara sem kenna verklegar greinar, starfsfólk í eldhúsi og þá sem starfa í öryggisnefnd.

Viku áður höfðu fulltrúar Vinnuverndarnámskeið ehf. komið í skólann, skoðað aðstæður og tekið myndir. Áhersla var lögð á að skoða aðstæður þar sem verknám fer fram. Þeim hjá Vinnuverndarnámskeið leist mjög vel á aðstæður og flest væri til fyrirmyndar varðandi vinnuverndar- og öryggismál. Nokkrar athugasemdir voru gerðar varðandi nauðsynlegar úrbætur og var það strax sett í vinnslu. Það varð einstaklega góð umræða á námskeiðinu um hvað væri vel gert í þessum málum og hvað mætti gera betur.

Myndirnar með fréttinni eru frá öryggisúttektinni en þar má sjá einhverja flottustu efnisrekka sem úttektaraðilar höfðu séð, snyrtilegan neyðarútgang og festingu gaskúta. Einnig er mynd af flottri almennri og staðbundinni loftræstingu. Við hliðina á kennarastofunni eru stórir prentarar og ljósritunarvélar geymdar í sérstöku rými sem er vel loftræst.