Nú þegar sól er farin að hækka á lofti og farfuglarnir byrjaðir að streyma til landsins er ekki óvitlaust að dusta rykið af gönguskónum og pumpa lofti í dekk hjólhestanna. Það vita það allir að það er meinhollt að hreyfa sig daglega og talað er um að eðlileg hreyfing fyrir hrausta manneskju sé um 10.000 skref á dag. Það eru u.þ.b. 7km í göngu innanbæjar. Ef við göngum eða hjólum tvisvar sinnum á dag í 15 mínútur ættum við að ná að hreyfa okkur eins og Embætti landlæknis leggur til að sé lágmarkshreyfing einstaklings daglega.
Hér meðfylgjandi er svokallað "korterskort" þar sem miðpunkturinn er Fjölbrautaskóli Suðurnesja og búið er að draga hring út frá skólanum sem er 1.6km. Það tekur venjulega manneskju u.þ.b. 15 mínútur að ganga þá vegalengd eða 6 mínútur að hjóla. Eins og sjá má á kortinu fellur meiri hluti gatna í bæði Keflavík og Ytri-Njarðvík innan þessa radíus.
Nemendur og starfsfólk skólans er því hvatt til að auka við daglega hreyfingu sína með því að ganga eða hjóla í skólann ef það hefur tök á - þá erum við bæði að bæta heilsuna og ferðast á umhverfisvænan hátt til skóla og vinnu.