Í síðustu viku lögðu fjórir kennarar frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja land undir fót og héldu til Tékklands í skólaheimsókn, þær Anna Rún Jóhannsdóttir, Ester Þórhallsdóttir, Harpa Kristín Einarsdóttir og Sigríður Rós Jónatansdóttir.
Skólinn sem heimsóttur var er í bænum Beroun og kallast Střední zdravotnická škola. Þar stunda um 200 nemendur nám á sjúkraliðabraut til starfsréttinda eða á nýrri námsbraut sem undirbýr nemendur undir háskólanám í heilbrigðisgreinum og þar starfa um 25 kennarar. Í skólanum fer fram bóklegt og verklegt nám en nemendur á þriðja og fjórða ári fara auk þess í starfsnám á sjúkrastofnunum. Skólinn er í nánu og góðu samstarfi við tvö mjög vel útbúin og nútímaleg sjúkrahús.
Í heimsókninni fengu kennararnir að kynnast skipulagi námsins, áherslum í kennslu og helstu kennsluaðferðum sem notaðar eru í skólanum t.d. CLIL aðferðinni sem snýr að því að samþætta tungumálakennslu (í þessu tilviki ensku) við faggreinar. Kennslustundir í bóklegum sem og verklegum greinum voru heimsóttar og fengu gestirnir að taka virkan þátt í þeim. Kennararnir frá FS héldu tvær kynningar um Ísland, FS, íslenskt skóla- og heilbrigðiskerfi á sal skólans fyrir nemendur og kennara. Vel tókst til og á eftir var boðið upp á umræður og fyrirspurnir bæði frá nemendum og kennurum og enginn vafi var á því að mikill áhugi var á að kynnast landi og þjóð betur.
Boðið var upp á skoðunarferð á annað sjúkrahúsið sem skólinn er í samstarfi við þar sem skoðaðar voru hinar ýmsu deildir svo sem fæðingar- og vökudeild, barnagjörgæslu, taugadeild og almenna skurðdeild. Fundur með yfirhjúkrunarfræðingi og fleira starfsfólki gaf svo nánari innsýn í skipulag og starfsemi sjúkrahússins. Gaman var að sjá kunnugleg andlit nemenda og kennara úr Střední zdravotnická škola í heimsókninni en nemendur skólans eru í starfsnámi á sjúkrahúsinu tvo morgna í viku undir leiðsögn kennara og starfsfólks sjúkrahússins.
Bæjarstjóri og varabæjarstjóri Beroun buðu kennurunum í heimsókn í ráðhúsið og buðu upp á skoðunarferð um það en húsið er gamalt og sögufrægt. Þótti þeim spennandi að hitta gesti frá svo fjarlægu landi og lýstu yfir áhuga á að mynda vinabæjartengsl við bæ á Suðurnesjum. Bærinn er í um 30 km fjarlægð frá höfuðborginni Prag og þar búa um 20 þúsund íbúar.
Allstaðar var tekið á móti hópnum af einstakri gestrisni og áhuga. Kennarar, stjórnendur, starfsfólk sjúkrahússins og í ráðhúsinu voru auðfús að svara spurningum, fræða og deila þekkingu.
Verkefnið er styrkt af EEA grants og kallast Sharing experience to Streamline Teaching and Increase Motivation For Learning, í vor munu svo þrír kennarar frá Beroun heimsækja Fjölbrautaskóla Suðurnesja í seinni hluta verkefnisins.









