FS-ingar og Sinfó

Sunnudaginn 29. september hélt Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands sína árlegu tónleika í Eldborg, Hörpu. Einn nemandi okkar lék með hljómsveitinni en það var Almar Örn Gærdbo Arnarson sem lék þar á trompet. Tveir fyrrverandi nemendur okkar léku einnig á tónleikunum, Arnar Geir Halldórsson á selló og Magnús Már Newman á slagverk, en þeir útskrifuðust báðir frá skólanum af tónlistarlínu listnámsbrautar sem er stúdentsbraut.

Þriðjudaginn 1. október voru svo hádegistónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar í Hörpu en þeir voru afrakstur Hljómsveitastjóraakademíu SÍ. Það er námskeið í hljómsveitarstjórn á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem ungt og efnilegt tónlistarfólk fær tækifæri til þess að spreyta sig á stjórnandapallinum og stjórna heilli sinfóníuhljómsveit undir handleiðslu Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníunnar. Sex ungir tónlistarmenn stjórnuðu hljómsveitinni en þar af voru þrír FS-ingar, Almar Örn Gærdbo Arnarson og Igor Kabala sem eru nemendur skólans og Sara Cvjetkovic sem er stúdent frá FS.

Það er mikill og verðskuldaður heiður fyrir þessa ungu tónlistarmenn að fá að taka þátt í þessum verkefnum á vegum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Öll hafa þau undirbúið sig af mikilli elju og kostgæfni á undanförnum vikum og mánuðum.

Myndirnar og upplýsingarnar í fréttinni eru frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en þeir sem nefndir eru í fréttinni eru öll núverandi eða fyrrverandi nemendur þar auk Rosalia Maria Mietus sem lék á fiðlu með Ungsveit Sinfóníunnar.