FS fékk viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu, fyrir árið 2024. Að þessu sinni hlutu 93 fyrirtæki, 15 sveitarfélög og 22 opinberir aðilar þessa viðurkenningu. Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.

Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands. Dr. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður Jafnvægisvogarinnar opnaði hátíðina og hrósaði stjórnendum fyrir eftirtektarverðan árangur í jafnréttismálum. Þá flutti Katrín Jakobsdóttir ávarp og fór yfir stöðuna í jafnréttismálum í samfélaginu almennt. Það var Sonja Sigurðardóttir fjármálastjóri sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd skólans.