Val á Stofnun ársins 2021 var tilkynnt á hátíð Sameykis 16. mars 2022 en titlana Stofnun ársins og Stofnun ársins - borg og bær hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í könnun Sameykis meðal starfsmanna þeirra. Könnunin náði til um 31 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja varð í 3. sæti í flokki stórra stofnana í könnuninni en skólinn varð í 7. sæti í síðustu könnun. Stærðarflokkarnir eru stofnanir með færri en 40 starfsmenn, stofnanir með 40-89 starfsmenn og stofnanir með 90 eða fleiri starfsmenn. Fimm efstu stofnanir í hverjum flokki hljóta titilinn Fyrirmyndarstofnun og fær skólinn þann titil nú í 6. sinn á síðustu átta árum.
Myndin með fréttinni var tekin þegar viðurkenningin var afhent á hátíð Sameykis. Á myndinni eru Guðmundur Grétar Karlsson aðstoðarskólameistari, Guðlaug Pálsdóttir skólameistari, Jón Þorgilsson trúnaðarmaður Sameykis í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis.