Frá útskrift vorannar

Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram á sal skólans föstudaginn 24. maí. Veðrið hefði getað verið betra þennan dag en gul veðurviðvörun var í gildi. En þó úti væri veður vont var eintóm gleði og hlýja innandyra enda er þessi dagur alltaf mikill hátíðisdagur fyrir útskriftarnemendur og fjölskyldur þeirra og ekki síður fyrir starfsfólk skólans.

Að þessu sinni útskrifuðust 118 nemendur; 81 stúdent, 20 luku verknámi, 5 útskrifuðust af sjúkraliðabraut, 10 af starfsbrautum og tveir af framhaldsskólabraut. Karlar voru 61 en konur 57. Alls komu 85 úr Reykjanesbæ, 16 úr Suðurnesjabæ, 8 úr Grindavík, 4 úr Vogum og einn úr Reykjavík, Garðabæ, Búðardal og Selfossi auk skiptinema frá Belgíu.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Leó Máni Quyen Nguyén nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Inga Lilja Eiríksdóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en að þessu sinni lék Ívar Snorri Jónsson nýstúdent á píanó og Ívar Snorri flutti einnig frumsamið lag á rafgítar ásamt Vilhjálmi Páli Thorarensen á rafbassa og Magnúsi Má Newman á trommur.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagslífi og má sjá nöfn verðlaunahafa hér. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Alexander Logi Chernyshov Jónsson styrkinn. Alexander hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi en hann útskrifaðist af raunvísindabraut með 9,97 í meðaleinkunn.

Við útskriftina veittu foreldrafélag skólans og Reykjanesbær verðlaun fyrir jákvæða framkomu á skemmtunum nemendafélagsins í vetur. Það var Lilja Dögg Friðriksdóttir forvarnafulltrúi skólans sem afhenti verðlaunin. Það voru þau Hólmgrímur Svanur Hólmgrímsson og Margrét Karítas Óskarsdóttir sem voru dregin úr hópi þeirra nemenda sem uppfylltu skilyrðin fyrir þátttöku en þau fengu bæði spjaldtölvu að gjöf.

Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita nemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þær Elín Snæbrá Bergsdóttir, Fjóla Margrét Viðarsdóttir, Veiga Dís Halldórsdóttir og Yasmin Petra Younesdóttir fengu 35.000 kr. styrk fyrir góðan árangur í tjáningu og ræðumennsku.

Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari vorönn 2024.

Í myndasafninu er veglegur myndapakki frá útskriftinni.