Frá útskrift haustannar

Brautskráning haustannar og skólaslit Fjölbrautaskóla Suðurnesja fóru fram föstudaginn 20. desember. Að þessu sinni var útskriftardagurinn fallegur en þennan dag var hvít jörð og stilla. Þessi dagur er alltaf hátíðlegur fyrir útskriftarnemendur og fjölskyldur þeirra og ekki síður fyrir starfsfólk skólans.

Að þessu sinni útskrifuðust 49 nemendur; 43 stúdentar, 4 úr verk- og starfsnámi, 2 meistarar og 2 luku prófi af tölvuleikjabraut Keilis. Þess má geta að sumir luku prófi af fleiri en einni braut. Karlar voru 27 en konur 22. Alls komu 35 úr Reykjanesbæ, 11 úr Suðurnesjabæ og einn úr Grindavík, Hafnarfirði og frá Selfossi.

Dagskráin fór fram á sal skólans og var með hefðbundnu sniði en athöfninni var einnig streymt. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðmundur Grétar Karlsson aðstoðarskólameistari  flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Ingibjörg Sara Thomas Hjörleifsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Bryndís Garðarsdóttir íslenskukennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en þar léku Igor Kabala og Sara Cvjetkovic fjórhent á píanó. Igor er nemandi skólans og Sara er stúdent frá skólanum en þau eru bæði nemendur í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagslífi og má sjá nöfn verðlaunahafa hér. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Bergþóra Sól Hálfdánsdóttir styrkinn. Bergþóra Sól hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi en hún útskrifaðist af raunvísindabraut.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Alísa Myrra Bjarnadóttir, Kara Mjöll Sveinsdóttir, Nikolai Leo Chernyshov Jónsson, Svala Gautadóttir og Þórunn Elfa Jörgensen Helgadóttir fengu öll 35.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í tjáningu og ræðumennsku.

Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari haustönn 2024.

Í myndasafninu er veglegur myndapakki frá útskriftinni.