Fyrsta heimsókn í Nordplusverkefninu „Technological Solutions For the Future"

Þann 4. nóvember síðastliðinn lagði hópur nemenda ásamt tveimur kennurum frá FS, af stað í skólaheimsókn til borgarinnar Šiauliai í Litháen. Šiauliai er fjórða stærsta borgin í Litháen en þar búa um 110 þúsund manns.

Að þessu sinni fóru 9 nemendur ásamt tölvugreinakennurunum Gísla og Rósu en ferðin er liður í samstarfsverkefni fjögurra landa. Þau lönd sem taka þátt í verkefninu ásamt Íslandi eru Danmörk, Svíþjóð og Litháen. Verkefnið er fjármagnað með styrk frá Nordplus Junior 2024 og ber heitið „Technological Solutions For the Future" og lýkur vorið 2026. Í lok mars á næsta ári koma löndin í heimsókn til okkar hér í Reykjanesbæ og svo verður farið til Danmerkur haustið 2025 og til Svíþjóðar vorið 2026.

Í Litháen var margt sniðugt gert og skoðað. Það má með sanni segja að Litháar eru höfðingjar að sækja heim og var tekið einstaklega vel á móti öllum. Nemendur í „Lieporiai Gymnasium“, en það heitir skólinn sem heimsóttur var, tók einstaklega vel á móti hópnum fyrsta daginn með þjóðlegum dönsum, söngatriðum og tónlistaratriðum og öllum var boðið dökkt brauð sem var dýft í salt til að bjóða okkur sérstaklega velkomin í skólann þeirra. Þann daginn var hóphristingur á dagskrá, þar sem allir nemendur verkefnisins notuðu tímann til að kynnast og var farið í ýmsa leiki. Eftir hádegið var farið í heimsókn í flokkunarstöð hverfisins, sem reyndar er sú eina í allri borginni, og skoðað hvernig þau bera sig að við að flokka rusl og endurnýta. Að hluta til er tilgangur verkefnisins m.a. að nýta tæknilausnir til að finna lausn við vandmálum tengdum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er sjálfbærni eitt þeirra. Nemendur skoðuðu svo í kjölfarið, með aðstoð gervigreindar, hvernig væri hægt að leysa þau ýmsu umhverfisvandamál sem heimurinn glímir við þessa dagana og hvernig væri möguleiki á að byggja upp samfélög þar sem tæknin væri partur af lausn vandamálanna svo hægt sé að búa í hreinu og heilbrigðu umhverfi.

Í tengslum við þetta Nordplus verkefni, var haldin ráðstefna á vegum „Lieporiai Gymnasium“ fyrir aðra kennara við framhaldsskóla í Šiauliai. Ráðstefnan bar heitið „The use of smart technologies in the implementation of updated educational content". Gísli og Rósa héldu vinnustofu fyrir þá nemendur sem komu frá Litháen, Svíþjóð og Danmörku og eins komu nokkrir kennarar sem sátu ráðstefnuna og tóku þátt í vinnustofunni. Vinnustofa þeirra bar yfirskriftina „AI to increase Productivity“, og fengu þátttakendur að kynnast hvernig má nýta sér gervigreind og gervigreindarverkfæri á hagnýtan og skemmtilegan hátt. Dagurinn endaði á sætum nótum en þá var farið í heimsókn til Rúta súkkulaðiverksmiðjunnar þar sem allir fengu fræðslu um sögu súkkulaðis, hvernig það er unnið og búið til ásamt því að fara á námskeið í konfektgerð. Það var því ánægður hópur sem gekk út úr súkkulaðiverksmiðjunni í lok dags.

Síðasta daginn fóru nemendur í eins konar ratleik ásamt öðrum nemendum og kennarar fóru og heimsóttu „Hill of Crosses“, sem er áhugaverður staður stutt fyrir utan borgina. Eftir enn einn áhugaverðan hádegisverð í skólamötuneytinu var farið með rútu til Kraziai í menningarmiðstöð svæðisins þar sem hópurinn fékk kennslu í þjóðlagatónlist og þjóðdönsum ásamt því að smakka á ýmsum þjóðarréttum Litháa.

Heimferðardagur var svo á föstudeginum en þar sem ekkert beint flug er frá Íslandi þurfti hópurinn að millilenda í Kaupmannahöfn, bæði á út- og heimleið.