Dimissio vorannar fór fram föstudaginn 5. maí en þar kveðja útskriftarnemendur skólann með dagskrá á sal. Hefð er fyrir því að dimittantar klæðist búningum og í ár var hópurinn búinn að panta glæsilega búninga frá annarri heimsálfu. Þeir bárust hins vegar ekki í tíma en hópurinn dó ekki ráðalaus og mætti í staðinn í ýmis konar íþróttabúningum. Það tókst vel og stemningin var góð eins og venjulega en hópmyndataka bíður þar til búningarnir eru komnir til landsins.
Hópurinn byrjaði morguninn reyndar í morgunmat hjá mötuneytisfólkinu sem bauð upp á egg, beikon, ávexti og fleira. Dagskráin byrjaði svo með myndbandi sem Dimissio-hópurinn hafði tekið upp. Síðan var komið að verðlaunaafhendingu en þar fengu útskriftarnemendur loksins tækifæri til að verðlauna kennara og starfsfólk fyrir vel unnin störf. Þar komu drottningin, kóngurinn, íþróttaálfurinn, grínistinn og fleiri við sögu og fengu auðvitað fegurðardrottningarborða til að tákna titilinn.
Þá er ekkert annað eftir en að klára önnina með stæl en útskrift verður svo föstudaginn 26. maí.
Í myndasafninu eru fleiri myndir frá Dimissio.