Miðvikudaginn 5. október var boðið upp á bingó á sal. Hver nemandi fékk eitt bingóspjald og voru glæsilegir vinningar í boði. Þar var m.a. spilað um matarmiða í mötuneytinu, bíómiða og debetkort með 5.000 krónum. Síðast var spilað um allt spjaldið og þar var 10.000 króna debetkort í vinning. Það var Eva María sem fékk bingó og stærsta vinninginn að þessu sinni. Þetta er í fyrsta sinn sem bingó er spilað á sal og myndaðist skemmtileg stemmning og spenna í salnum og þeir sem tóku þátt skemmtu sér vel. Ekki er ólíklegt að aftur verði boðið upp á bingó síðar á önninni og þá geta þeir sem ekki fengu bingó í þetta skipti reynt aftur.
Meðfram bingóinu var dregið úr edrú-pottinum frá fyrsta balli vetrarins hjá NFS. Í pottinn fara allir þeir sem blása í áfengismæli á böllum og síðan eru nokkrir dregnir út eftir hvert ball. Þeir fengu að þessu sinni vinninga eins og miða á næsta ball, bíómiða, matarmiða í mötuneytinu og 5.000 króna debetkort. Aðalvinningarnir voru brunch fyrir tvo hjá The Bridge á Marriott og litun og plokkun hjá Hárfaktorý og Snyrtistofu Gerðu Arndal. Þess má geta að Bílnet ehf. hefur veitt 50.000 króna styrk í edrú-pottinn og verður hann notaður til að kaupa vinninga fyrir pottinn í vetur.
Í myndasafnið eru komnar nokkrar myndir frá bingóinu.