Afbrotafræðinemar tóku þátt í rannsóknarverkefni

Nemendur í afbrotafræðiáfanga í félagsfræði fengu tækifæri til að taka þátt í rannsóknarverkefni á vegum Háskóla Íslands sem miðar að því að skoða viðhorf til afbrota og refsinga. Markmið verkefnisins er að afla dýpri skilnings á viðhorfum ungs fólks og raunverulegrar dómaframkvæmdar og greina helstu áskoranir og tækifæri sem tengjast efninu.
 
Tveir rýnihópar nemenda tóku þátt og fengu þannig tækifæri til að deila reynslu sinni, skoðunum og hugmyndum um málefnið. Niðurstöður rannsóknarinnar munu verða nýttar, t.d. til að bæta réttarkerfið, þróa nýjar lausnir eða dýpka fræðilega umræðu.
 
Rannsóknaverkefnið er hluti af norrænni rannsókn á afstöðu til refsinga. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, stendur að rannsókninni hér á landi en það voru þær Hekla Steinarsdóttir, sem er mastersnemi í afbrotafræði, og Edda Lind Guðmundsdóttir, mastersnemi í félagsfræði, sem sáu um að leggja rannsóknina fyrir rýnihópana.