VINS3VU10 - Vinnustaðanám í fótaaðgerðafræði 1 - Þjálfun

Undanfari : Fótaðgerðarfræði 1, Meðferðarfræði fóta 1, Hlífðarmeðferð 1 og Spangartækni 1
Í boði : Haust

Lýsing

Áfanginn er með þeim hætti að inni í skólanum er fótaaðgerðastofa og þangað getur skjólstæðingur pantað sér tíma til að fá þá meðhöndlun sem hann óskar eftir eða ráðgjöf vegna fótameina sinna. Nemandi fær þá þjálfun í að taka á móti skjólstæðing, greina fótameinið, gera sjúkraskýrslu og annað, eins og um sé að ræða eigin fótaaðgerðastofu nema kennarar eru til staðar og fylgjast með því að nemandi hafi gert rétta greiningu og tekið rétta ákvörðun um hvernig meðferð skuli háttað. Þegar meðhöndlun er lokið þarf að sótthreinsa umhverfið og dauðhreinsa áhöld og sér nemandinn um að ganga frá öllu eftir sína vinnu með leiðsögn kennara. Með þessu fær nemandinn einnig þjálfun í framkomu við skjólstæðinginn og hversu mikilvægt það er að virða manneskjuna, kunna rétta samskiptatækni og að allt sem viðkemur skjólstæðingum sé trúnaðarmál. Nemendur fá þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum og nota ferilbók til að halda utanum og fara yfir hvaða þjálfun og fótamein þeir hafa unnið með. Mikilvægt er að allir nemendur fái að vinna með og kynnast sem flestum fótameinum og fótaformum. Farið er í vettvangsnám á þá staði sem veita nemendum innsýn í störf fótaaðgerðafræðinga.


Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • mikilvægi trúnaðar og þagnarskyldu við skjólstæðing.
  • siðareglum.
  • vinnuaðstæðum á fótaaðgerðastofu.


Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • sýna grunnfærni í störfum fótaaðgerðafræðinga.
  • virða siðareglur.
  • greina fótamein.
  • tengja bóklegt og verklegt nám í starfi.
  • vinna sjálfstætt og geti brugðist á réttan hátt við aðstæðum sem skapast geta á vinnustað hverju sinni.
  • umgangast skjólstæðinga sína og aðstandendur þeirra af þroska og með varfærni.
  • gefa fræðslu og faglega ráðgjöf.


Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • þroska með sér ábyrgðartilfinningu.
  • sýna hæfni í samskiptum við skjólstæðinga og samstarfsfólk.
  • ákveða og veita fullnægjandi meðferðarúrræði fótameina, undir leiðsögn kennara.
  • vera meðvitaður um öryggi á vinnustað, mikilvægi hreinlætis og smitvarnir.
  • æfa sig í að skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla.