VIFR2ST05 - Viðskiptafræði - Stjórnun, hugtök og kenningar

Undanfari : Enginn
Í boði : Alltaf

Lýsing

Kynnt eru grunnhugtök og meginviðfangsefni stjórnunar. Áhersla er lögð á að auka skilning nemenda á mikilvægi stjórnunar, fyrir fyrirtæki og samfélagið í heild. Nemendur fá innsýn í helstu verkefni og hlutverk stjórnenda. Fjallað er um þróun í stjórnunarkenningum og hvernig breytingar í þjóðfélaginu hafa leitt til þess að sífellt meiri áhersla hefur verið lögð á stjórnun sem fræðigrein. Nemendum er kynnt mikilvægi stefnumótunar og markmiðssetningar ásamt því að greina umhverfi stjórnunar. Viðfangsefni áfangans miðar meðal annars að því að undirbúa nemendur fyrir frekara nám í stjórnun, ásamt þátttöku í félags- og atvinnulífi. Kennsla fer fram með fyrirlestrum, umræðutímum og verkefnavinnu nemenda. Áhersla er lögð á raunhæf verkefni og hópavinnu og að nemendur sýni sjálfstæði í vinnubrögðum.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • helstu hlutverkum stjórnunar
  • leiðtogahæfni
  • sögu stjórnunar sem fræðigreinar og helstu fræðimönnum
  • fyrirtækjamenningu
  • siðferði skipulagsheilda
  • samfélagslegri ábyrgð skipulagsheilda
  • umhverfi skipulagsheilda
  • breytingastjórnun
  • stefnumótun, áætlanagerð og markmiðssetningu
  • skipulagi fyrirtækja
  • mannauðsstjórnun
  • ráðningarferlinu
  • þjálfun og umbun starfsmanna

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • beita grunnhugtökum stjórnunar við verkefnavinnu
  • ræða helstu kenningar og aðferðir stjórnunar
  • vinna raunhæf verkefni um stjórnendur í atvinnulífinu
  • vinna saman í hóp
  • koma þekkingu sinni á framfæri
  • útbúa skipurit

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • beita hugtökum og aðferðum stjórnunar í starfi
  • meta siðferðileg álitamál sem varða stjórnun
  • heimfæra hugmyndir stjórnunar á eigið líf
  • nýta sér hæfni sína til frekara náms
  • nýta hæfni sína til þess að taka þátt í atvinnulífinu
  • vinna raunhæf verkefni sem stjórnandi
  • búa yfir færni í að skilgreina mismunandi stjórnunarstíla
  • skilja helstu skipurit
  • vera hæfari til að takast á við þá áskorun að taka virkan þátt í atvinnulífi þjóðarinnar
  • hafa það sem þarf til að bera til að bæta og efla atvinnulíf landsmanna í framtíðinni
  • geta tekið einfaldar stjórnunarákvarðanir