SÝKL2SS05 - Sýklafræði

Undanfari : Enginn
Í boði : Haust

Lýsing

Í áfanganum er farið yfir grunnatriði örverufræði og staða örverufræðinnar innan náttúrufræðinnar skoðuð. Fjallað er um flokkun örvera sem og lífsstarfsemi eins og efnaskipti, æxlun og dreifingu. Nemandinn lærir um mikilvægi örvera í náttúrulegum vistkerfum, í iðnaði sem og skemmdir og sjúkdóma af völdum örvera og varnir gegn þeim. Helstu flokkar baktería eru kynntir. Frumatriði í veirufræði, s.s. staða veira í lífheiminum, gerð, fjölgun, áhrif veira á hýsla, veirusjúkdómar og varnir gegn þeim verða kynnt. Mikilvægi örvera fyrir heilsu manna og leiðir til þess að örva æskilega örveruflóru verða skoðaðar. Nemandinn kynnist vinnubrögðum á rannsóknarstofu og helstu aðferðum í örverurannsóknum og líftækni.  

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • uppbyggingu og helstu eiginleikum baktería, arkea, frumvera, frumdýra og örþörunga, sveppa og veira
  • grunnatriðum í flokkunarfræði örvera
  • notkun örvera í rannsóknum, lyfjaframleiðslu og iðnaði
  • smitleiðum og sjúkdómum af völdum örvera
  • helstu aðferðum við sjúkdómavarnir og sótthreinsun
  • stöðu veira í lífheiminum og samskiptum þeirra við hýsla
  • helstu aðferðum við einangrun, ræktun og greiningu örvera
  • helstu aðferðum við sótt- og dauðhreinsun
  • mikilvægi þarmaörvera fyrir heilsu manna


Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • greina helstu tegundir örvera á grundvelli einkenna þeirra
  • flokka örverur á grundvelli einkenna þeirra og niðurstaðna greiningarprófa
  • teikna einfalda skýringarmynd af dreifkjörnungi og merkt helstu frumulíffæri
  • taka örverusýni og búa þau til ræktunar
  • vinna með örverur á öruggan hátt
  • skrá niðurstöður athugana og setja fram í skýrslum
  • setja bakteríusýni á ræktunarskálar með ræktunarlykkju
  • lesa af ræktunarskálum, fylgjast með lit og lögun þyrpinga og geta reiknað út þéttleika baktería miðað við þynningar.


Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • auka skilning á almennri umfjöllun á sviði örverufræði
  • tengja örverufræðina við daglegt líf og umhverfi og sjá notagildi hennar.
  • taka ábyrgð á eigin lífi m.t.t. sýkingarhættu og sjúkdóma af völdum örvera
  • afla sér frekari þekkingar á sviði örverufræði
  • gera sér grein fyrir samspili örverufræði og annarra náttúrufræðigreina
  • gera grein fyrir eðlilegri og góðri meðferð matvæla til að lágmarka hættu á matarsýkingum
  • taka þátt í rökræðum er lúta að viðfangsefni áfangans t.d. bólusetningum, smithættu og hagnýtingu örvera