SÁLF3JS05 - Sálfræði - Jákvæð sálfræði
Undanfari : FÉLV1IN05
Í boði
: Alltaf
Lýsing
Í áfanganum kynnast nemendur viðfangsefnum jákvæðrar sálfræði sem eru meðal annars styrkleikar, tilfinningar, hamingja, velferð, þakklæti, bjartsýni, sjálfsvinsemd og flæði. Fjallað verður um jákvæða sálfræði í sögulegu samhengi og kynntar verða helstu kenningar og rannsóknir á því sviði. Nemendur læra leiðir til að efla sjálfsmynd sína, auka jákvætt hugarfar og tilfinningagreind og setja sér raunhæf markmið með SMART markmiðssetningu. Auk þess verður fjallað um hvernig andleg líðan tengist hugsunum og hegðun og hvernig hægt er að hafa áhrif á eigin hugsanir, hegðun sem skilar sér í aukinni vellíðan.
Þá kynnast nemendur núvitund, iðka hana og tileinka sér í daglegu lífi en núvitund er talin efla athygli og einbeitingu, bæta líðan, auka hugarró og andlegt jafnvægi svo eitthvað sé nefnt. Núvitund er stunduð í kennslustundum 1x í viku í u.þ.b. 10 vikur.
Mikil áhersla verður lögð á virkni (verkefnavinnu og umræður) nemenda bæði innan og utan kennslustofunnar. Nemendur gera meðal annars hagnýtar og gagnreyndar æfingar með það að markmiði að stuðla að jákvæðum tilfinningum og hugsunum.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- jákvæðri sálfræði sem fræðigrein
- helstu hugtökum og viðfangsefnum jákvæðrar sálfræði
- hvernig hægt sé að nýta sér leiðir jákvæðrar sálfræði dagsdaglega til að auðga líf sitt
- hvernig hægt er að nýta eigin styrkleika til að bæta eigin lífsgæði
- helstu tilfinningum sem stuðla að jákvæðri hugsun og athöfnum
- helstu kenningum jákvæðrar sálfræði og nauðsynlegum þáttum til hamingjuríks lífs
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- nýta sér leiðir jákvæðrar sálfræði dagsdaglega til að bæta eigin lífsgæði
- ígrunda eigin hugsanir, tilfinningar og viðhorf
- lesa heimildir á gagnrýninn hátt
Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- bæta eigið sjálfsmat og sjálfsþekkingu
- efla og nota eigin styrkleika
- bregðast við neikvæðum hugsunum og tilfinningum á uppbyggilegan hátt
- auka jákvæðni og þar með vellíðan í daglegu lífi
- miðla jákvæðum lífsgildum
- setja sér raunhæf markmið
- nálgast verkefni á faglegan og sjálfstæðan hátt