MYNL3ÞR05 - Myndlist - Þrívíð hönnun - skúlptúr

Undanfari : MYNL2AT05 og MYNL2TA05
Í boði : Alltaf

Lýsing

Þrívíð verkefni verða unnin frá hugmynd til útfærslu. Leitast er við að dýpka skilning nemenda á meginatriðum þrívíðrar myndbyggingar um leið og næmi fyrir mismunandi eiginleikum efna er eflt. Hönnunarsagan skoðuð í tengslum við verkefnin. Þjálfun í þeirri skissu- og hugmyndavinnu sem öll myndræn sköpun byggist á, hvort sem um er að ræða hönnun eða frjálsa myndlist. Í áfanganum er unnið með grunnforsendum tvívíðrar myndbyggingar og þrívíðrar hönnunar. Fjölbreyttar æfingar eru gerðar til að kanna myndflötinn, skoðað hvernig form og hlutföll hafa áhrif á jafnvægi hans og áhersla breytist eftir því hvernig lína og form skipta fletinum upp. Unnið er með hugtök eins og hrynjanda, jafnvægi og ójafnvægi, léttleika og þunga bæði í rými og í tvívíðum verkum. Einnig er kannað með endurtekningu hvernig hægt er að byggja upp mynstur á fleti og kenningar hönnuðarins William Morris kannaðar í því sambandi. Einnig er módernisminn í lista- hönnunar og byggingarlistasögu lagður til grundvallar verkefnum. Verkefnin þróast frá tvívíðri formfræði yfir í þrívídd og niðurstöður tvívíðra æfinga nýtast sem grunnur að frekari könnunum á formi og hlutföllum í rými. Nemendur læra meginatriði myndbyggingar í rými og þróa hugmyndir sínar áfram með tilliti til þess efniviðar sem við á hverju sinni. Að lokum vinna nemendur tillögur að einföldum hönnunarverkefnum eða skúlptúrum. Í tvívíðum æfingum er unnið með óhlutbundin form, svartan lit á hvítt og í þrívíðum verkefnum er byggt úr einföldum efnum, pappa, við og vír.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • hugtökum eins og jákvætt/neikvætt rými
  • vægi forma og hlutfalla í myndbyggingu
  • grunnforsendum myndbyggingar í tvívíðum og þrívíðum verkum

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • nota á meðvitaðan hátt jákvæð og neikvæð form í myndbyggingu
  • yfirfæra niðurstöðu kannana sinna úr tvívídd yfir í þrívídd
  • geta byggt upp einföld verk sem byggist á virkni í þrívídd

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • túlka hugmyndir með beitingu forma og hlutfalla í mynd
  • þekkja áhrif línu og flata í myndbyggingu
  • kynna niðurstöður sínar á fjölbreyttan hátt
  • taka á virkan hátt þátt í umræðu um verkefni sín og annarra nemenda