HMFF3ÁP05 - Hlífðarmeðferð 3

Undanfari : Hlífðarmeðferð 2
Í boði : Haust

Lýsing

Farið er í sérsniðna sóla, s.s. sóla fyrir sykursjúka og gigtveika. Nemendur læra að útfæra hlífðarlausnir til að létta álagi á viðkvæm svæði, t.d. eftir skurðaðgerð, og viðkvæm svæði á fótum einstaklinga sem eru í áhættuhópi. Nemendur læra einnig að gera flóknari innlegg, s.s. hitamótuð innlegg, sóla með eða án göngumöguleika, einfaldar tegundir af sandölum, lokaða skó úr plastazote, lokaða skó úr leðri, meðferðaskó með lofttæmimótuðum botni, hælskó, upphitaðar hælskálar, innlegg með höggverjandi púðum og gervitær úr sílíkoni. Þá læra nemendur að gæðameta ferlið við sértækar lausnir í hlífðarmeðferð, þ.e.a.s. ferlið frá greiningu vandamáls og þar til meðferð er lokið.


Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • uppbyggingu meðferðarskóa og umbúða sem eiga að auðvelda þeim gang sem þarfnast sértækra meðferðarúrræða.
  • mikilvægi þess að dreifa álagi við sértæk meðferðarúrræði.
  • helstu meðferðarúrræðum.
  • nýjustu efnum og aðferðum sem notaðar eru við gerð meðferðarskóa.
  • helstu vinnureglum og öryggismálum við meðferð véla og efna, s.s. lím- og plastefna.


Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • búa til nokkrar mismunandi tegundir af meðferðarskóm sem gerðar eru ýmist beint á fót eða eftir gifsafsteypu.
  • meta gæði hlífðarlausna, bæði þeirra sem nemandi hefur sjálfur gert og þeirra sem fengin eru annars staðar.
  • nálgast upplýsingar um ný efni og aðferðir við stærri hlífðarmeðferðir.


Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • geta skráð sjúkraskýrslu/dagbók um stærri hlífðarmeðferðir, s.s. við sárum og áverkum.
  • geta gengið um tæki og efni á verkstæði af öryggi.
  • útfæra hlífðarlausnir eftir skurðaðgerð.
  • gera flóknari innlegg, t.d. hitamótuð innlegg, hælskó og gervitær úr sílikoni.
  • gæðameta ferlið frá greiningu vandamáls og þar til meðferð er lokið.