FÓTF3FS03 - Fótaaðgerðafræði 3
Undanfari : Fótaaðgerðarfræði 2
Í boði
: Haust
Lýsing
Skilgreind eru sjúkdómseinkenni í fótum sem eru til orðin vegna sykursýki, forsendur þeirra og afleiðingar. Fjallað er um minnkað tilfinningaskyn og blóðflæði í fótum, hreyfigetu, tauga- og liðkvilla, æða- og blóðrásarkvilla, fótasár og aflimanir. Nemendur læra að skoða fætur sykursjúkra, skráningu og skýrslugerð. Þeir læra að gera ýmsar mælingar, s.s. tónkvíslarmælingu, monofilament-mælingu, blóðflæðis- og æðasláttarmælingu, húðhitamælingu o.fl. Nemendur læra að skoða ástand liða, tauga- og æðakerfis fóta, réttstöðu, óeðlilegar gönguhreyfingar og að þekkja einkenni Charcot-fótarins. Farið er í hvað ber að varast við meðferð sykursjúkra, sýkingahættu, meðferðarúrræði, hlífðarmeðferð og sáraumbúnað. Enn fremur er lögð áhersla á eftirlit og teymisvinnu, fótabúnað og forvarnir, félagslegar og efnahagslegar aðstæður sykursjúkra, fræðslu og ráðgjöf.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- orsökum helstu fótameina sem hrjá sykursjúka.
- mikilvægi forvarna.
- mismunandi aðstæðum skjólstæðings sem geta krafist mismunandi eftirfylgni.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- greina helstu orsakir fótameina hjá sykursjúkum.
- gera og skrá mælingar sem tengjast snertiskyni, blóðflæði og liðum sykursjúkra.
- útskýra mikilvægi forvarna.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- meðhöndla helstu fótamein hjá sykursjúkum.
- ákveða meðferðarúrræði og verið meðvitaður um hvað ber sérstaklega að varast við meðferð fóta sykursjúkra.
- skilgreina sjúkdómseinkenni í fótum sykursjúkra.