FOFF3FO03 - Fætur og fótamein

Undanfari : Fótaaðgerðafræði 2, Lífaflsfræði, Líffæra- og lífeðlisfræði
Í boði : Haust

Lýsing

Fjallað er almennt um sár á fótum og helstu orsakir þeirra. Sérstaklega er fjallað um þrýstingssár, bláæðaexem og bláæðasár og blóðþurrðarsár. Undirliggjandi orsakir og forsendur meðferðar. Sýkingum af völdum sveppa, baktería og veira í húð, nöglum og naglbeði eru gerð skil sem og grunnreglum um meðferð og umhirðu sára. Kynntar eru helstu sárameðferðir og samvinna við aðrar heilbrigðisstéttir um sértæk meðferðarvandamál og forgreiningu undirliggjandi orsaka sára. Fjallað er um helstu hreinsiefni, sáraumbúðir, mismunandi eiginleika og notkun þeirra. Nemendur fara í vettvangsheimsóknir á göngudeild húðsjúkdóma. Heimsóknirnar eru skipulagðar af skóla í samráði við sjúkrastofnun. Áhersla er lögð á að nemendur sjái margvíslegar tegundir fótameina og fái innsýn í viðeigandi meðferðarúrræði og forvarnir. Nemendur vinna verkefni og skila skýrslum um heimsóknirnar. Fjallað er um innrænar orsakir frumulöskunar og viðbrögð vefja við álagi. Farið er í húðsjúkdóma, sjúkdóma í stoð-, hreyfi- og taugakerfi, orsakir, einkenni og helstu meðferðarúrræði.


Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • mismunandi fótasárum.
  • grunnreglum sárameðferðar.
  • muninum á milli alvarlegra og minniháttar sára.
  • hvaða aðferðum á að beita við hreinsun sára.
  • umbúnaði sára.
  • innrænum orsökum frumulöskunar og viðbrögð vefja við álagi.
  • húðsjúkdómum, sjúkdómum í stoð-, hreyfi- og taugakerfi; orsakir, einkenni og helstu meðferðarúrræði.


Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • greina hin mismunandi fótasár og grunnorsökum þeirra.
  • gera grein fyrir helstu vandamálum og hættum sem fylgja meðferðum á mismunandi tegundum sára.


Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • meðhöndla einfaldari sár.
  • kunna skil á helstu grunnmeðferðarreglum við lækningu sára.
  • hafa yfirsýn yfir helstu umbúðir og hreinsiefni við græðingu sára.