FÉLA3AB05 - Félagsfræði - Afbrotafræði 2

Undanfari : FÉLA3AH05
Í boði : Alltaf

Lýsing

Framhaldsáfangi í afbrotafræði þar sem lögð er áhersla á að þjálfa nemendur í að beita gagnrýnni hugsun. Farið verður í viðfangsefni afbrotafræðinnar á ítarlegri hátt en í afbrotafræði I og ný viðfangsefni tekin fyrir eins og t.d. íslenskar rannsóknir í afbrotafræði, þróun refsinga, alþjóðlegur samanburður, greiningu afbrotatíðni eftir sveitarfélögum, birtingamynd afbrota í fjölmiðlum, rafræn afbrot, afbrot innan fjölskyldunnar, tengsl félagslegrar stöðu og afbrota og aðferðir til að draga úr afbrotatíðni. Farið verður á ítarlegri hátt í kenningar og rannsóknaraðferðir greinarinnar með það að markmiði að nemandinn verði fær um að lesa fræðin með gleraugum kenninga og verði gagnrýninn á vísindalegan og uppbyggjandi hátt. Þá er lögð áhersla á að nemandinn geti beitt kenningum og vísindalegri hugsun við greiningu á raunverulegum viðfangsefnum. Markmiðið er að auka skilning, túlkun, leikni og færni nemandans í að nota kenningar rannsóknarniðurstöður og rökhugsun með það að markmiði að geta lagt fram stefnumótandi tillögur.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • þróun afbrotafræðinnar á Íslandi
  • tilgangi refsilaga
  • íslenskum rannsóknum í afbrotafræði
  • tengslum félagslegrar stöðu og afbrota
  • tengslum kenninga við raunveruleg viðfangsefni
  • hryðjuverkum og hryðjuverkahópum
  • ítrekunartíðni afbrota í alþjóðlegum samanburði
  • rafrænum afbrotum
  • aðferðum til að draga úr afbrotatíðni

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • greina frá og skýra ólíka afbrotatíðni eftir samfélagsgerðum
  • greina frá og skýra ólíka afbrotatíðni í heiminum
  • skilgreina ítrekunartíðni afbrota og hlutverk fangelsiskerfisins
  • skýra rafræn afbrot sem hluta af nýrri samfélagsmynd
  • skýra aðferðir til að draga úr afbrotatíðni
  • nota kenningar til að fást við almenn viðfangsefni afbrotafræðinnar
  • lesa og greina rannsóknir afbrotafræðinga á gagnrýnin hátt

Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • nýta sér helstu aðferðir greinarinnar á ítarlegan hátt
  • nýta sér kenningar í stefnumótun
  • geta beitt gagnrýnni hugsun í fræðilegri umræðu