EFRÆ1GN04 - Efnisfræði grunnnáms
Undanfari : Enginn
Í boði
: Haust
Lýsing
Í áfanganum fá nemendur yfirsýn yfir helstu efni og efnisflokka sem notaðir eru við bygginga‐ og mannvirkjagerð með áherslu á rétt efnisval fyrir ákveðin verk og umhverfi. Fjallað er um tré sem smíðaefni og uppbyggingu þess, plötuefni, festingar, steinsteypu, múr og múrefni, málma og bendistál, pípulagnaefni, plastefni, málningar‐ og spartlefni, fúgu‐ og þéttiefni, lím, einangrun, gler, þakefni, klæðningarefni, gólfefni og veggfóður. Gerð er í grófum dráttum grein fyrir uppruna efnanna, flokkun þeirra, merkingum, eiginleikum og hlutverki. Kennslan fer að mestu fram með verkefnavinnu þar sem nemendur læra að afla sér upplýsinga með margvíslegu móti, s.s. af netinu, og með fyrirlestrum.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- helstu viðartegundum, uppbyggingu þeirra, eiginleikum og notkun.
- mismunandi plötuefnum sem notuð er í gróf‐ og fínsmíði.
- algengustu viðarlímtegundum og notkunarsviði þeirra.
- steinsteypu og öðrum byggingarefnum úr járni og steinefnum.
- flokkun og eiginleikum jarðefna til bygginga‐ og mannvirkjagerðar.
- samsetningu, hörðnun og flokkun steinsteypu.
- algengustu efnum og lagnaútfærslum í pípulögnum.
- málningar‐, þétti‐, spartl‐ og viðgerðarefnum sem notuð eru í byggingariðnaði.
- algengustu gerðum gólfefna.
- samsetningu og eiginleikum algengra veggefna og veggfóðurs.
- einangrunarefnum og einangrunargleri.
- muninum á hita‐, hljóð‐ og rakaeinangrun.
- algengustu einangrunarefnum og eiginleikum þeirra.
- framleiðslu og flokkun á einangrunargleri.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- velja efni miðað við notkunargildi og aðstæður.
- lesa flokkun efna (t.d. frá framleiðendum).
- velja þau efni sem við eiga og henta hverju sinni.
- greina hvaða efnum má blanda saman og hverjum ekki.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- velja, meðhöndla og nota byggingarefni fyrir mismunandi verkefni innanhúss og utan.
- greina áhrif tilbúinna efna á umhverfið.