Gervigreindarstefna

1. Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja eiga að fylgja fyrirmælum kennara um notkun gervigreindar. Ef nemandi er í vafa um hvort og hvernig heimilt er að nota gervigreind við lausn verkefna ber honum að leita upplýsinga hjá viðkomandi kennara.

2. Sömu reglur gilda um notkun gervigreindar og um notkun allra annarra heimilda og aðstoð í námi. Ávallt skal fylgja viðurkenndum aðferðum um frágang heimilda og vísa þarf til heimilda samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Ef nemendur nota gervigreind í samráði við kennara við úrlausn verkefna ber þeim að gera grein fyrir því hvernig það var gert og hvernig gengið var úr skugga um áreiðanleika gagnanna.

3. Ef nemandi verður uppvís að því að nota gervigreind án heimildar eða á rangan hátt getur kennari metið verkefnið ógilt.

Dæmi um nýtingu gervigreindar:

  • Gera námið einstaklingsmiðaðra
    Nemendur geta til dæmis nýtt gervigreindartól til þess að spyrja spurninga í þeim tilgangi að fá nánari útskýringar svo sem óska eftir einföldum útskýringum á flóknu efni, láta útskýra flókna hluti skref fyrir skref, kalla fram skilgreiningar á hugtökum. Kennarar geta nýtt gervigreind til þess að búa til miserfiðar útgáfur af verkefnum eða misþungan lestexta út frá einum upprunalegum texta.
  • Sem tól í verkefnavinnu
    Ef kennari heimilar notkun gervigreindar í verkefnavinnu er hægt að nýta hana á ýmsan hátt. Til dæmis til þess að móta og afmarka rannsóknarspurningu, einnig er hægt að biðja gervigreindarspjall um athugasemdir eða mótrök við rökfærslu, spurt efnislegra spurninga og fengið upplýsingar um eitthvað sem tengist efni verkefnisins og fengið hugmyndir um fleira sem gæti átt heima í verkefni. Kennarar geta nýtt gervigreind til þess að fá nýjar útfærslur á verkefnum eða til að aðstoða við að útbúa ný verkefni.
  • Auðvelda lestur með því að taka saman aðalatriði
    Hægt er að biðja um stutta samantekt á aðalatriðum úr löngum texta en slíkt getur auðveldað lestur og flýtt fyrir.
  • Hvað ber að varast?
    Upplýsingar sem gervigreind gefur er háð takmörkunum og því ekki hægt að treysta að allar upplýsingar sem gervigreindartól eins og t.d. spjallmenni á borð við Chat GPT gefa séu réttar. Það er mikilvægt að vísa ávallt í heimildir til þess að forðast ritstuld. Mikilvægt er að hafa í huga að gervigreindartól fá upplýsingar einhverstaðar frá, það er ritstuldur að vísa ekki í þær heimildir.

    Samþykkt í apríl 2024