Hér og nú á Þemadögum

Þriðjudaginn 20. febrúar var þemadagur í skólanum en þá er skólastarfið brotið upp. Þemað í ár er "FS hér og nú" og til að vera í núinu var undirþemað IceGuys. Boðið var upp á námskeið, fyrirlestra, spil og íþróttir um allan skólann. Það er óhætt að segja að framboðið hafi verið fjölbreytt en nemendur gátu valið um ávaxtafondue, borðtennis, hláturjóga, karaoke, körfubolta, slímgerð og margt fleira.

Í hádeginu var svo matartorg þar sem hægt var að velja um pizzur, bollakökur, nýbakaðar vöfflur með rjóma og margt fleira. Í takt við IceGuys undirþemað voru hvítir bolir til sölu merktir skólanum og þemanu en þeir giltu einnig sem aðgangur að matartorginu. Í matarhléinu var einnig boðið upp á Kahoot-keppni þar sem nemendur reyndu að þekkja æskumyndir af kennurum og starfsfólki skólans. Þau Arnór og Hjördís úr Kósýbandinu fluttu svo nokkur lög.

Ekki var annað að sjá en fólk hafi skemmt sér vel á þemadeginum og það á jafnt við um nemendur og starfsfólk. Allir tóku virkan þátt og fóru sælir og saddir heim.

Í myndasafninu er veglegur myndapakki frá Þemadeginum.