Gulir unnu Starfshlaupið

Starfshlaup Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram föstudaginn 22. mars. Starfshlaupið fór nú fram í 28. sinn en það hóf göngu sína árið 1994.

Í Starfshlaupinu skipta allir nemendur skólans sér niður í fimm lið sem hvert hefur sinn einkennislit. Fyrirliðar hvers liðs koma svo úr hópi útskriftarnemenda. Í hlaupinu reyna liðin með sér í flestum námsgreinum sem kenndar eru við skólann, fjölmörgum íþróttagreinum og ýmis konar þrautum og leikjum. Markmiðið er að ljúka keppninni á sem stystum tíma en liðin fá einnig stig fyrir frammistöðuna í hverri keppnisgrein. Það eru kennararnir Kiddý og Anna Rún sem sjá um Starfshlaupið og gerðu það með glæsibrag en mikil vinna fer í undirbúning og skipulag þessa stóra viðburðar.

Keppnin var æsispennandi í ár en að lokum var það Gula liðið sem fór með sigur af hólmi. Fyrirliðar liðsins, Agnar, Bergsveinn og Ernir, tóku því við Starfshlaupsbikarnum sem Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti. Að venju fékk sigurliðið pizzuveislu að launum og að því loknu héldu nemendur og starfsfólk í langþráð páskafrí eftir skemmtilegan dag.

Í myndasafninu er veglegur myndapakki frá Starfshlaupinu.