Skýrslugerð

 

FS. Áfangi...
dagur og ár
HEITI TILRAUNAR Nafn / nöfn
nemenda

Markmið / Tilgangur / Tilgáta

Í upphafi skal tilgreina markmið eða tilgang með þessari æfingu. Hvers vegna verið er að framkvæma hana, eða hvaða tilgátu er verið að prófa. Ef æfingin tengist ákveðnu lögmáli er gott að lýsa því hér í stuttu máli.

Dæmi: „Markmiðið með þessari æfingu er að kanna áhrif hitastigs og styrks hvarfefnis á hraða efnahvarfa. Samkvæmt lögmálum efnafræðinnar ætti hraði hvarfefna að aukast við aukið hitastig og aukinn styrk hvarfefna".

Mikilvægt er að orða markmið eða tilgátu nákvæmlega.  Í ályktunum (sjá síðar) þarf nemandinn að taka afstöðu til þess hvort tilgátan / markmiðið sem hér var sett fram standist prófið eða ekki.

 

Áhöld og efni
Undir þessari fyrirsögn skal geta allra efna og áhalda sem notuð voru og skipta máli við framkvæmd tilraunarinnar.

 

Framkvæmd
Hér á að lýsa framkvæmd tilraunarinnar af nákvæmni, þannig að sá sem les skýrsluna gæti endurtekið tilraunina með því að fylgja lýsingunni. Þannig gæti hann athugað hvort hann fengi sömu niðurstöður (tortryggni er nefnilega dyggð í raunvísindum).

Lýsingin á ekki að vera nákvæm endurritun af verklýsingu á vinnublaðinu. Lýsa þarf nákvæmlega hvernig staðið er að mælingum, við hvað er miðað, hvernig úrtak er valið o.s.frv. Stundum er æskilegt að teikna uppsetningu tækjabúnaðar auk lýsingar í orðum. Í sumum æfingum (einkum í efri áföngum) heimilar kennarinn að lýsingin sé stytt með því að vísa í verklýsinguna.

 

Niðurstöður
Í þessum kafla skal birta allar niðurstöður úr æfingunni, ásamt útreikningum. Einnig skulu helstu óvissuþættir tíundaðir. Niðurstöðurnar má setja fram í orðum, tölum og myndum, þ.e. sem texta, töflur, gröf og útreikninga. Þær þurfa að vera nákvæmar en jafnframt eins einfaldar og skiljanlegar og unnt er.

Niðurstöðum má skipta á eftirfarandi hátt (er þó háð því hvernig æfingin er):

1. Töflur með niðurstöðum mælinga og nauðsynlegum skýringum, t.d. hvers vegna gögnin eru meðhöndluð á þann hátt sem taflan sýnir.

2. Útreikningar sem þarf að gera í æfingunni. Mikilvægt er að einingar komi skýrt fram (svo sem g, cm, °C, m/sek o.s.frv.). Í sumum eðlisfræðitilraunum þarf að sýna óvissuútreikninga samkvæmt nánari fyrirmælum kennara.

3. Myndir og gröf. Gröfin geta verið línurit, súlurit, stöplarit eða skífurit, allt eftir því hvað verið er að sýna. Miklu skiptir að velja graf sem hentar gögnunum. Graf er yfirleitt annars konar útlistun á því sem þegar hefur komið í töflu og útreikningum og gerir túlkun auðveldari.

4. Óvissa / skekkjuþættir. Hér er tínt til það sem getur skekkt niðurstöðurnar, þ.e. gert þær ónákvæmar eða rangar á einhvern hátt. Óvissa kemur fram í mælingum (stundum háð nákvæmni mælitækisins) en skekkja er vegna utanaðkomandi áhrifa (t.d. hitastig í herbergi eða loftmótstaða).

 

Ályktanir / Túlkun / Umræða
Þetta er yfirleitt mikilvægasti kafli skýrslunnar. Í þessum lokahluta eru niðurstöðurnar skoðaðar ítarlega og reynt að sjá hvort ekki megi álykta út frá þeim; t.d. hvort lögmálið, reglan eða tilgátan standist prófið, eða hvort hún gangi ekki upp og hvers vegna. Hér er ályktað um niðurstöðurnar og þær túlkaðar. Niðurstöðurnar eru m.a. bornar saman við markmiðin eða tilgátuna sem sett var fram í byrjun. Hafi markmiðum æfingarinnar verið náð, t.d. hafi niðurstöðurnar verið í samræmi við tilgátuna eða eitthvert þekkt lögmál, skal fjalla um það og vitna í niðurstöðurnar því til sönnunar. Hafi þetta ekki tekist ber að reyna að skýra hvers vegna sú hafi orðið raunin.

 

Vönduð vinnubrögð
Fylgja skal leiðbeiningum á vinnublaði eða í bók nema kennari hafi breytt þar einhverju.

Vanda skal uppsetningu og frágang skýrslunnar og ekki síst málfar og stafsetningu.

Í mörgum áföngum er krafist vélritaðra (tölvuprentaðra) skýrslna, en í öðrum að þær séu skrifaðar með penna og skýru letri á þar til gerðan skýrslupappír.


Tekið saman af raungreinakennurum Fjölbrautaskóla Suðurnesja