Íslenska sem annað tungumál - Talað mál og lestur
Í áfanganum er lögð áhersla á íslenskan orðaforða, framburð, lestrarfærni, námstækni og notkun hjálpargagna. Markmiðið er að nemendur fái nægilega undirstöðu í lestri, talmáli, námstækni og hugtökum námsgreina til að geta tekið fullan þátt í námi og starfi í íslenskum framhaldsskólum. Nemendur öðlast vald á undirstöðuþáttum sem eru forsendur eðlilegrar framvindu í námi. Þeir lesa bókmenntatexta og ýmsa aðra texta við hæfi, átta sig á eðli þeirra og fá þjálfun í að tjá sig á skýru máli samkvæmt íslenskri málhefð. Áfanginn er hugsaður fyrir þá nemendur sem þurfa frekari undirbúning og aðstoð í íslensku og námi almennt til að geta stundað nám í íslenskum framhaldsskólum.