Útskrift haustannar

UtskriftH2018 Frett1Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram fimmtudaginn 20. desember.

Að þessu sinni útskrifuðust 65 nemendur; 51 stúdent og 20 úr verk- og starfsnámi. Þess má geta að sumir luku prófi af fleiri en einni braut og þriðjungur þeirra sem luku prófi af starfs- og verknámsbrautum luku jafnframt stúdentsprófi. Konur voru 35 og karlar 30. Alls komu 45 úr Reykjanesbæ, átta úr Garði og Sandgerði, sjö úr Grindavík, þrír úr Vogum, einn úr Kópavogi og einn frá Neskaupstað.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Laura Stefany Önudóttir Lastra nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Gunnar Valdimarsson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju fluttu nemendur skólans tónlist við athöfnina en Einar Hugi Böðvarsson nýstúdent lék á píanó og nýstúdentarnir Sólborg, Einar og Gunnar Guðbrandsbörn sungu ásamt Sigríði systur sinni og Guðbrandi Einarssyni föður þeirra en Guðbrandur lék einnig undir á píanó.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Sólborg Guðbrandsdóttir fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda, Sigríður Eva Tryggvadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í spænsku, Kamilla Ósk Karlsdóttir Häesler fyrir góðan árangur í viðskiptafræði og þær Margrét Hulda Þorsteinsdóttir og Helga Rún Proppé fengu viðurkenningu fyrir árangur sinn í félagsfræði. Þórdís Lúðvíksdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur á listnámsbraut textíllínu og Ólafía Inga Ástvaldsdóttir fyrir textíl. Garðar Björgvinsson fékk verðlaun frá Ískraft og Rafiðnaðarfélagi Suðurnesja fyrir góðan árangur í verklegu grunnnámi rafiðna og raflögnum. Garðar fékk einnig gjafir frá Rönning og Reykjafell fyrir árangur sinn í grunnnámi rafiðna og frá Landsbankanum og Isavia fyrir góðan árangur í verknámi. Hjörtur Freyr Lárusson fékk verðlaun frá DMM lausnum og Kosmos & Kaos fyrir góðan árangur í vefforritun. Kristín Helgadóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í félagsfræði og sálfræði og gjöf frá Landsbankanum fyrir árangur sinn í samfélagsgreinum. Einar Guðbrandsson fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í eðlisfræði og spænsku og verðlaun frá Þekkingasetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í náttúrfræðigreinum. Gunnar Guðbrandsson fékk svo viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræði, spænsku og ensku og gjöf frá Landsbankanum fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum.

Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Einar Guðbrandsson styrkinn.  Einar hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þær Helga Sveinsdóttir, María Tinna Hauksdóttir og Natalia Jenný Lucic Jónsdóttir fengu allar 25.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í tjáningu og ræðumennsku.

Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari haustönn 2018.

Hér er veglegt myndasafn frá útskriftinni.

UtskriftH2018 Frett2

UtskriftH2018 Frett3

UtskriftH2018 Frett4