THL-136C

Textílhönnun
Þetta er blandaður áfangi sem fólginn er í þekkingu á hinum ólíku tækni- og kunnáttusviðum textílhönnunar og hvernig sú þekking nýtist sem möguleiki á listrænu tjáningarformi, þ.e. að "mála" með nál, prjónum, efni, þræði o.s.frv. Áfanginn skiptist í tvennt.

Fyrri hlutinn (þrjár einingar): Lögð er áhersla á vinnuaðferðir, tæki og tól, munsturgerð, litasamsetningu o.fl. Unnið er með blandaða tækni og gerðar prufur, t.d. prjón, útsaumur (bundinn, frjáls), vefnaður (borð- og gólfvefstóll, myndvefnaður, spjaldvefnaður), þrykk, bútasaumur, ásaumur, skinn, knipl, hekl, þæfing o.fl. Unnið er með minnst tvö til þrjú af framantöldum kunnáttusviðum, gerðar prufur og verkefni.

Seinni hlutinn (þrjár einingar): Verkefni nemenda sem unnið er út frá myndfleti, skúlptúr, fötum eða nytjahlutum. Verkefnavalið er í höndum nemenda í samráði við kennara. Lögð er áhersla á skapandi, vönduð og skipulögð vinnubrögð í formi hugmyndamöppu sem inniheldur prufur, tilraunir, vinnulýsingar og vinnuteikningar. Nemendur vinna munsturgerð á tölvu auk annarrar hugmyndavinnu sem tölvutækni býður upp á. Vettvangsheimsóknir í tengslum við námsefnið gætu verið t.d. í ullarverksmiðju, prjónastofu, til textílhönnuða, tengst skinnaiðnaði o.fl. Æskilegt er að nemendur haldi sýningu á verkum sínum.

Athugasemd: Valáfangi